Kristinn Bergsson

Það er ekki hægt að byrja á sögu K.B. Skósmiðju án þess að fjalla fyrst um Kristinn Bergsson, en það er einmitt það sem K.B. stendur fyrir. Kristinn hóf sinn skóferil ungur að aldri, eða um fermingaraldur, þegar hann fékk vinnu við í gömlu verksmiðjunum á Akureyri. Þar byrjaði hann í hinum ýmsu léttu verkum eins og að naglbinda sóla, taka leista og fleira í þeim dúr. Á tímum niðurskurðar missti hann vinnu sína þarna í verksmiðjunum, líkt og margir aðrir, en það leið ekki langur tími þar til þeir voru farnir að leita til hans aftur til að koma og vinna aftur.

Kiddi, eins og hann er kallaður, fór svo til Danmerkur árið 1956 með konu sinni, Konný, sem hann hafði kynnst nokkur áður, til að læra skóhönnun en Konný, sem er dönsk, var einmitt að fara læra hjúkrun á sama tíma. Kiddi vann hjá skóverksmiðju á meðan hann nam útí Danmörku en þar voru allir skór handsmíðaðir og seldir voru í Illum á Strikinu í Kaupmannahöfn. Árið 1958 fór svo Kiddi til Örebro í Skofagskolan en kom heim ári síðar. Konný og Kiddi giftu sig síðan árið 1960 og hafa búið á Akureyri síðan.

Kiddi starfaði hjá Iðunni hvað lengst en þar var mjög öflug skóverksmiðja um skeið og þar störfuðu um 100 manns þegar sem hæst stóð. Á þessum tíma voru framleidd 90 þúsund skópör á ári og allt á innanlandsmarkaði. Kiddi gerði öllu módel af skóm á þessum tíma, barnaskór, karlmanns- og kvennmansskór af öllu tagi, skautaskór og jafnvel skíðaskór.

Kiddi starfaði svo hjá Strikinu þegar þeir keyptu reksturinn af Sambandsverksmiðjunum og svo síðar hjá Skrefinu þegar þeir keyptu reksturinn af Strikinu. Hann starfaði í 2 ár hjá Skrefinu á Skagaströnd, var þar á virkum dögum og fór heim um helgar, en að þessum 2 árum loknum þá var hann ekki lengur þarfur þar. Á þessum árum hafði honum áskotnast eitthvað að vélum og búnaði og ákvað því að stofna sitt eigið fyrirtæki árið 1994 og nefndi það K.B. Skósmiðja. Kiddi einbeitti sér við smíði á svokölluðum heilsuinniskóm, sem hafa verið mjög vinsælir í gegnum árin. Einnig framleiddi hann krossbandainniskó sem voru sérstaklega vinsælir í sveitum landsins og gengu jafnan undir nafninu “sveitaskór” eða “bændaskór.” Kiddi hefur alla sína ævi lagt up með að vanda smíði sína mjög og það hafa viðskiptavinir hans alltaf kunnað að meta.

Eigendaskiptin

Það var svo árið 2013 sem Hólmfríður byrjaði að setjast niður með Kidda og læra handtökin við smíðina skónum. Eftir að hafa setið með Kidda og lært handtökin ákvað Hólmfríður að reyna fyrir sér í þessu og var því samið við Kidda um kaup á K.B. Skósmiðju þar sem hann hafði verið að hugsa um að hætta í nokkur ár. Þann 1. maí árið 2013 keypti Hólmfríður K.B. Skósmiðju og hefur verið að framleiða skóna undir merkjum K.B. Skósmiðju síðan.

Kiddi er þó ekki alveg hættur ennþá en hann hefur mikla ástríðu fyrir skósmíðinni og er nú orðinn einn af álfunum hjá Skósmiðinum og álfunum.